Enski boltinn

Hart tekið á gyðingahatri á Stamford Bridge

NordcPhotos/GettyImages

Forráðamenn Chelsea hafa gripið til aðgerða eftir að stuðningsmaður liðsins kvartaði yfir að hafa orðið fyrir gyðingahatri á leik liðsins á dögunum.

Maðurinn er ársmiðahafi og heldur því fram að um 50 stuðningsmenn hafi sungið niðrandi lög um gyðinga á heimaleik liðsins gegn Derby á dögunum.

Hópurinn er sagður hafa sungið "Avram Grant er gyðingskvikindi" og lög um helförina. Stuðningsmanninum brá mjög í brún og lét hann bæði félagið og lögreglu vita.

Forráðamenn Chelsea brugðust við þessu og átti fulltrúi öryggisnefndarinnar á Stamford Bridge fund með manninum fyrir leik Chelsea og Arsenal.

En stuðningsmaðurinn er ekki sáttur og í samtali við blað gyðinga í Lundúnum segir hann Chelsea hafa brugðist í málinu.

Forráðamenn Chelsea hafa gefið út yfirlýsingu þar sem fram kemur að fordómar og viðlíka hegðun verði ekki liðin á pöllunum og lofa að aðstoða lögreglu við rannsókn mála á borð við þetta.

Þá hefur verið komið á sérstakri símavakt þar sem hægt er að tilkynna svona atvik og hefur þetta verið auglýst í leikdagskrá Chelsea.

Það var Daily Mail sem greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×