Enski boltinn

Ronaldo minnir mig á George Best

AFP

Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United segist sjá margt líkt með þeim Cristiano Ronaldo og George Best. Portúgalinn ungi hefur þegar slegið markamet goðsagnarinnar Best hjá félaginu og hefur verið í einstöku formi í vetur.

"Það er sannarlega margt líkt með þeim. Þegar George spilaði á vængnum var hann aldrei lengi á sama stað og færði sig milli kanta og sótti inn á miðjuna. Ég hef séð nokkur af mörkum hans og mörg þeirra eru mjög lík þeim sem Ronaldo er að skora í dag. Hann byrjar út á kanti en sækir svo inn í teiginn. Drengurinn er í fantaformi núna," sagði Ferguson.

Ronaldo er búinn að skora 33 mörk á leiktíðinni fyrir United en á enn nokkuð langt í met Dennis Law sem skoraði 46 mörk fyrir liðið á leiktíðinni 1963-64.

"Dennis var frábær leikmaður og maður sem ég leit mikið upp til. Ég verð að segja að ég vissi ekki að hann hefði skorað svona mikið. Hann skoraði meira að segja fleiri mörk en ég. Ég skoraði 45 mörk í 51 leik fyrir Dunfermilne leiktíðina 1965-66," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×