Enski boltinn

Ramos hefur áhuga á Ronaldinho

NordcPhotos/GettyImages

Juande Ramos, stjóri Tottenham, segist ætla að gera allt sem í hans valdi stendur til að halda framherjanum Dimitar Berbatov í röðum liðsins. Hann viðurkennir að hafa áhuga á Brasilíumanninum Ronaldinho hjá Barcelona.

Umboðsmaður Búlgarans hefur verið mjög iðinn við að moka undan skjólstæðingi sínum hjá Tottenham með því að lýsa yfir áhuga hinna og þessara liða á kröftum hans, en forráðamenn Lundúnaliðsins eru ekki hrifnir af því að þurfa hugsanlega að láta hann fara.

Umboðsmaðurinn lýsti síðast yfir áhuga AC Milan á að fá Berbatov í sínar raðir.

"Við viljum að Berbatov haldi áfram að leika með Tottenham en við skiljum alveg að hann hafi mikinn metnað. Það eru mörg stór félög sem sýna honum áhuga og það er eðlilegt því hann er frábær knattspyrnumaður," sagði Ramos.

Hann lét hafa það eftir sér í spænskum fjölmiðlum að hann hefði áhuga á að fá til sín Ronaldinho hjá Barcelona.

"Bestu leikmennirnir falla inn í hvaða lið sem er, líka Tottenham. Ronaldinho mundi passa mjög vel inn í lið okkar," sagði Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×