Enski boltinn

Fyrirliðinn verður að vera góð fyrirmynd

Fabio Capello hefur nú varpað fram ákveðnum vísbendingum um það af hverju hann kaus að gera Rio Ferdinand að fyrirliða enska landsliðsins fyrir leikinn gegn Frökkum í kvöld.

Flestir bjuggust við því að John Terry, fyrirliði Chelsea, fengi að bera bandið en einhverjir bjuggust við því að það kæmi í hlut Steven Gerrard eða jafnvel David Beckham, sem fær væntanlega að spila sinn 100. landsleik fyrir Englendinga.

Capello sagðist ekki sjá sig knúinn til að útskýra val sitt sérstaklega, en út úr orðum hans má lesa að hann sé ekki ánægður með sífelldar aðfarir John Terry að dómurum í undanförnum leikjum með Chelsea.

"Ég þarf ekki að útskýra ákvarðanir mínar fyrir neinum. Við þurfum að vera fyrirmyndir út á við þegar við spilum með liðum okkar og landsliðum. Hluti af því er að sýna dómurum og stuðningsmönnum virðingu. Við erum kannski dálítið aftarlega á merinni þegar kemur að þessu atriði í dag," sagði Capello.

"Fyrirliði er maður sem á að gefa gott fordæmi bæði í leikjum og á æfingum og ekki væri verra ef hann væri góð fyrirmynd utan knattspyrnunnar líka. Það er mjög mikilvægt, ekki bara fyrir fyrirliða Englands heldur okkur alla sem erum í knattspyrnunni. Við erum á margan hátt fyrirmyndir ungs fólks," sagði Ítalinn.

Hann hefur þrátt fyrir þetta ekki lokað á að Terry taki við fyrirliðabandinu í framtíðinni. "Ég mun skipta um fyrirliða þangað til ég vel landsliðshópinn í ágúst og þangað til á Terry möguleika á að taka við fyrirliðabandinu," sagði Capello.

Hann hefur ekki áhyggjur af fortíðinni, en Ferdinand komst í fréttirnar þegar hann var settur í bann fyrir að skrópa í lyfjapróf árið 2004.

"Við veltum okkur ekki upp úr fortíðinni. Rio kemur mér fyrir sjónir sem atvinnumaður bæði á æfingum og í leikjum og ég held að hann geti orðið góður fyrirliði landsliðsins." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×