Lífið

Böddi í Dalton ber sig vel eftir árás

Andri Ólafsson skrifar
Böðvar Rafn Reynisson
Böðvar Rafn Reynisson

"Ég var útskrifaður af sjúkrahúsinu klukkan 12 á laugardeginum. Á miðnætti var ég kominn upp á svið á Neskaupstað með hljómsveitinni," segir Böðvar Rafn Reynisson, söngvari hljómsveitarinnar Dalton, sem varð fyrir hrikalegra árás aðfaranótt laugardagsins á Höfn í Hornafirði.

Eins og Vísir greindi frá annan í páskum var ráðist á Böðvar aftan frá með glasi eða flösku þannig að hann hlaut djúpan skurð hægra meginn á hálsi. Hann missti um tvo lítra af blóði en 50 spor þurfti til að loka sárinu.

Böðvar, eða Böddi Dalton eins og hann er oftast kallaður, ritaði nafn sitt hins vegar kyrfilega í sveitaballasöguna nú um helgina. Hann tók sig til og flaug austur á firði aðeins fáeinum tímum eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu og minni en sólarhring eftir að hann varð fyrir lífhættulegri árás og steig á stokk með hljómsveitinni sinni á dansleik á Neskaupsstað.

"Ég varð reyndar að fara mér mjög hægt til að byrja með," segir Böðvar hógvær þegar hann er spurður hvernig hann hafi eiginlega farið að þessu. Hann segist hafa fengið verkjalyf frá læknum og látið bjórinn eiga sig. "Ég er náttúrulega ekki alveg bandbrjálaður," segir hann.

Böðvar og félagar hans í Dalton eru einir af fáum sem enn gera sitt til þess að viðhalda íslensku sveitaballahefðinni af einhverju ráði. Strákarnir ferðast um landið þvert og endilangt í eigin langferðabíl af gamla skólanum og halda böll í plássum sem margir telja of mikið úr alfaraleið til þess að það sé þess virði að koma þar við.

Böðvar segist hafa gaman af þessari rútínu og segir til dæmis frá því að apríl mánuður sé svo gott sem fullbókaður.

"En varðandi það sem gerðist á Höfn, þá vil ég koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu mér til aðstoðar þegar þetta var hvað mest krítískt. Þó að það sé einn svartur sauður á Höfn í Hornafirði mun hann ekki koma í veg fyrir að ég fari þangað aftur og taki einn snúning," segir Böðvar Rafn léttur í bragði.

Hann hefur lagt inn formlega kæru til lögreglu vegna árársarinnar á Höfn en málið er enn í rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.