Enski boltinn

Hutton ánægður að hafa farið í úrvalsdeildina

NordcPhotos/GettyImages

Skoski bakvörðurinn Alan Hutton segist ekki sjá eftir þvi að hafa ákveðið að ganga í raðir Tottenham frá Rangers í janúar. Hann segist þegar hafa bætt sig sem leikmaður í sterkari deild.

Hutton undirbýr sig nú undir landsleik Skota og Króata á morgun, en hann segir alla mótherja sína í úrvalsdeildinni í heimsklassa.

"Hver einasti maður sem maður leikur á móti hérna í úrvalsdeildinni er landsliðsmaður í hæsta gæðaflokki. Það hefur hjálpað mér að bæta mig sem leikmaður að mæta þessum mönnum í hverri viku og maður verður að vera á tánum hverja einustu mínútu því annars fer illa fyrir manni," sagði Hutton.

Ákvörðunin um að flytja suður á bóginn var honum ekki auðveld. "Ég hef haldið með Rangers frá blautu barnsbeini og ég þurfti líka að hugsa um fjölskylduna þegar ég ákvað að flytja til London. En ég hef notið mín vel til þessa og félagar mínir í liðinu hafa hjálpað mér að falla inn í hópinn. Ég er ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun," sagði Hutton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×