Lífið

Íslenskur atvinnumaður í klettadýfingum

Hinn 32 ára Egill Ormarsson er íslenskur í húð og hár en flutti fimm ára gamall til Danmerkur með móður sinni og bróður. Þar kynntist hann dýfingum og hóf að stunda þær af kappi strax sem stráklingur. Að loknum menntaskóla var keppnisferli Egils í ólympískum dýfingum lokið. Hann var þó ekki til í að hætta alveg og sneri sér því að dýfingarsýningum. Það var svo í gegnum þessar sýningar sem Egill kynntist jaðaríþróttinni klettadýfingum, en einungis um 30 einstaklingar keppa reglulega í þessari íþrótt á heimsvísu og er Egill einn þeirra. Hann er eini Íslendingurinn sem keppir í þessari fágætu jaðaríþrótt. Keppnirnar eru haldnar víðs vegar um heiminn en þessar myndir voru teknar á heimsmeistaramótinu í Acapulco í Mexíkó í lok nóvember á síðasta ári.

La Quebrada kletturinn þar er einn frægasti dýfingarstaður heims og hefur heimsmeistaramótið verið haldið þar síðan árið 2003. Af þeim dýfingastöðum sem keppt er á í heiminum er þessi talinn einn sá hættulegasti. Stokkið er úr 25 metra hæð og þar sem kletturinn er aflíðandi út á við þarf að spyrna sér ansi langt út til að forðast að lenda á honum. Vatnsdýptin er þar að auki ekki nema 3 metrar þannig að ekkert má fara úrskeiðis við stökkið.

Því er haldið fram að hæðin frá efsta klettinum sem stokkið er frá sé 35 metrar en líklega má draga nokkra metra frá því. Þrátt fyrir að Egill sé vanur því að stökkva úr mikilli hæð hefur hann í raun aldrei vanist tilfinningunni. „Ég er alltaf dálítið hræddur fyrir hvert stökk og þarf að stappa í mig stálinu áður en ég stekk, en það hjálpar mér líka að halda einbeitingunni," segir Egill. Dýfingamennirnir þurfa einnig að fylgjast grannt með inn- og útöldunni því að munurinn á vatnsdýptinni getur verið einn og hálfur metri. „Maður horfir á ákveðinn punkt utan við klettana og stekkur þegar aldan er á leið inn, annars er voðinn vís," segir Egill.

Þetta er fámennt bræðralag dýfingamanna og mikill og náinn vinskapur hefur myndast með þeim gegnum árin. Egill passar upp á að vera bæði úthvíldur og einbeittur rétt fyrir fyrsta stökkið. „Á þessum tímapunkti hugsa ég bara um stökkið sem ég er að fara að framkvæma," segir hann og bætir við: „Ég er mjög spenntur." Eftir erfiða keppni leyfa menn sér þó að slappa vel af. „Maður er jú í Mexíkó," segir Egill og fær sér sopa af köldum bjórnum í hitanum. Það er hluti af stemningunni í hópnum, sem kemur saman til að taka þátt í þessum keppnum, að hittast og spjalla í rólegheitunum.

Stökkin eru flókin og tæknilega erfið en á sama tíma þurfa þau að vera fallega útfærð og glæsileg. Stökkinu er hægt að deila í þrjá hluta. Það þarf kraft og nákvæmni þegar stokkið er frá klettinum, því næst eru skrúfur og snúningar útfærðar með tæknilegri snilld og að lokum þarf dýfarinn að rétta sig af og ná að lenda teinréttur í vatninu til að koma í veg fyrir stóra skvettu. Allt tekur þetta tæpar þrjár sekúndur. „Tilfinningin rétt áður en ég stekk fram af klettinum er mjög sérstök. Þá átta ég mig á því að það verður ekki aftur snúið. Og í lok stökksins þegar ég flýg í gegnum loftið rétt áður en ég lendi í vatninu á u.þ.b. 85 km hraða, fæ ég adrenalínkikk," segir Egill sem lenti í áttunda sæti af 16 keppendum.

Teitur Jónasson er ljósmyndari hjá Nyhedsavisen í Danmörku. Hann fylgdi Agli Ormarssyni eftir við klettadýfingar í Mexíkó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.