Enski boltinn

Eriksson langar að kaupa stórstjörnu

NordcPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson hefur verið duglegur að eyða peningum í leikmenn síðan hann tók við Manchester City í fyrra og segist hvergi nærri hættur. Sagt er að hann muni fá væna summu aftur næsta sumar og Svíinn vill gjarnan kaupa stórstjörnu til félagsins.

"Þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða og það er möguleikinn á því að kaupa leikmann í eldri kantinum og þá stórt nafn - mann sem fyllir sætin og smalar fólki á völlinn," sagði Eriksson og bendir á metnað eigandans Thaksin Shinawatra.

"Hann vill koma City í Meistaradeildina innan skamms og það vil ég líka. Það er góður metnaður og ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Hann hefur staðið við allt sem hann lofaði og hann lofar að verði til peningar í sumar til að halda áfram að styrkja liðið. Ég hef ekki spurt hve mikið, en ég veit að það verða til peningar," sagði Eriksson.

City var í fallbaráttu þegar Eriksson tók við, en það náði fljúgandi starti síðasta sumar og var lengi vel í kring um toppinn. Blaðran hefur svo heldur sprungið á síðustu mánuðum en Eriksson hefur þó tekist að festa liðið í sessi í efri hluta deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×