Enski boltinn

Meiðslin skemmdu mikið fyrir okkur

NordcPhotos/GettyImages

Alan Curbishley, stjóri West Ham, segist ekki hafa hugmynd um möguleg leikmannakaup félagsins í sumar eftir að meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá liðinu í vetur.

Curbishley þurfti að bregðast við brottför manna eins og Marlon Harewood, Carlos Tevez og Yossi Benayoun þegar hann tók við, en Hamrarnir voru duglegir að kaupa leikmenn síðasta sumar.

Ekki fóru þessi kaup öll á besta veg og þrír af nýjustu leikmönnum liðsins hafa varla verið með í allan vetur.

Franski miðjumaðurinn Julien Faubert náði ekki einu sinni að hefja leiktíðina eftir að hann sleit hásin í æfingaleik síðasta sumar og Kieron Dyer fótbrotnaði skömmu eftir að hann vann sér sæti í enska landsliðinu á ný. Þeir Craig Bellamy og Scott Parker hafa lítið sem ekkert getað spilað vegna meiðsla og þá eru meiðslavandræði West Ham-manna fjarri því upptalin.

Öll þessi meiðsli hafa því eðlilega sett strik í reikninginn í áformum West Ham á leikmannamarkaðnum í sumar, en þá hefur félagið sér til aðstoðar nýjan yfirmann knattspyrnumála - Ítalann Gianluca Nani.

"Við eyddum talsverðum fjármunum síðasta sumar en menn gleyma því að við fengum líka mikið til baka. Við eyddum um 28 milljónum punda en við fengum líka um 22 milljónir til baka með því að selja leikmenn," sagði Curbishley.

"Við losuðum okkur við nokkra leikmenn en því miður hafa þeir sem komu í staðinn ekki náð að spila mikið. Við misstum þá Parker, Faubert og Bellamy á fyrstu tveimur vikunum, en það litla sem maður hafði séð til þeirra lofaði mjög góðu. Ef þeir ná sér allir, verðum við komnir með fjóra til fimm nýja leikmenn og við vonum að þeir verði allir búnir að ná sér áður en undirbúningstímabilið hefst í sumar. Ef þeir ná sér mun það vissulega hafa áhrif á það hvort við kaupum leikmenn í sumar eða ekki, en við höfum hreinlega ekki sest niður og tekið ákvörðun um hvað verður í þeim efnum," sagði Curbishley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×