Enski boltinn

Ferguson hrósaði Ronaldo

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson fór fögrum orðum um Cristiano Ronaldo í dag eftir að sá portúgalski tryggði Manchester United sigur á Derby í baráttuleik á útivelli.

United fékk fullt af færum í leiknum en það var ekki fyrr en stundarfjórðungi fyrir leikslok sem hinn ótrúlegi Ronaldo náði að tryggja gestunum sigurinn. Þetta var 31. mark hans á leiktíðinni.

"Ronaldo fékk mikið af færum í leiknum og færið sem hann skoraði úr var líklega það erfiðasta. Þetta var erfiður leikur og Derby menn gáfust aldrei upp og gáfu okkur mikla og sterka keppni," sagði Ferguson og hrósaði Ronaldo frekar.

"Það eru menn eins og hann sem fólk kemur til að sjá og maður getur ekki annað en hvatt hann til að halda áfram að spila eins og hann gerir. Hann er mikið sparkaður niður en hann hefur hugrekki til að standa upp aftur og halda áfram," sagði Ferguson.

Hann reiknar með æsilegum lokaspretti í deildinni.

"Við eigum leik við Bolton næst þar sem við getum komist á toppinn með sigri. Spennan er á suðumarki og þetta verður frábær endasprettur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×