Enski boltinn

Gríðarlega erfitt verkefni hjá Arsenal

Arsene Wenger og félagar eiga mjög erfiðar þrjár vikur frá páskum
Arsene Wenger og félagar eiga mjög erfiðar þrjár vikur frá páskum NordcPhotos/GettyImages

Lið Arsenal á ekki auðvelt verkefni fyrir höndum á lokasprettinum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hér fyrir neðan gefur að líta leikjaplanið hjá liðinu frá páskum.

Arsenal byrjar vægast sagt rosalega þriggja vikna törn á páskadag þegar liðið sækir Chelsea heim í úrvalsdeildinni. Næst kemur útileikur gegn Bolton og það eru leikir sem hafa reynst lærisveinum Arsene Wenger erfiðir í gegn um tíðina.

Miðvikudaginn 2. apríl byrjar svo þriggja leikja hrina liðsins þar sem það mætir Liverpool tvisvar í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og leika liðin úrvalsdeildarleik sín á milli helgina á milli. Arsenal og Liverpool mætast því þrisvar á einni viku.

Þar með er ekki öll sagan sögð því helgina eftir síðari leik Arsenal og Liverpool í Meistaradeildinni þarf Arsenal svo að mæta á Old Trafford og spila við helstu keppinauta sína í baráttunni um enska meistaratitilinn - Manchester United.

Það má því ætla að línur eigi eftir að skýrast mikið í toppbaráttunni á Englandi á þessari þriggja vikna törn hjá liði Arsenal.

Leikir Arsenal frá 23. mars til 13. apríl:

Úrvalsdeild: Chelsea-Arsenal 23. mars

Úrvalsdeild: Bolton-Arsenal 29. mars

Meistaradeild: Arsenal-Liverpool 2. apríl

Úrvalsdeild: Arsenal-Liverpool 5. apríl

Meistarardeild: Liverpool-Arsenal 9. apríl

Úrvalsdeild: Man Utd-Arsenal 13. apríl

Leikjataflan hjá Liverpool verður reyndar ekkert grín heldur og á liðið tvo stóra leiki í úrvalsdeildinni áður en að törninni við Arsenal kemur.

Liverpool sækir þannig Manchester United heim á páskadaginn 23. mars og tekur á móti grönnum sínum í Everton sunnudaginn 30. mars - nokkrum dögun áður en Arsenal-törnin hefst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×