Lífið

Vonum að tækniguðirnir verði í húsinu

Breki Logason skrifar
Guðmundur Jónsson í Sálinni.
Guðmundur Jónsson í Sálinni.

„Það er nú mesta furða hvað ég er lítið stressaður enda er ég búinn að koma flestu frá mér. Nú get ég aftur orðið gítarleikari og hætt að vera framkvæmdarstjóri eins og ég hef verið undanfarnar vikur," segir Guðmundur Jónsson í Sálinni Hans Jóns Míns.

Sálin heldur 20 ára afmælistónleika í Laugardalshöllinni í kvöld og segir Guðmundur að margt eigi eftir að koma á óvart. „Ég hvet fólk bara til þess að fylgjast með. Það verða allskonar tilvísanir og óvæntir atburðir. Þetta lítur allavega mjög vel út á teikniborðinu og við vonum því bara að tækniguðirnir verði í húsinu," segir Guðmundur sem er létt eftir að tveir lúxuskassar með öllum plötum Sálarinnar komu til landsins í morgun.

Í tilefni 20 ára afmælisins gefur sveitin út tvo lúxuskassa með öllum þrettán plötum hljómsveitarinnar sem bera heitið Vatnaskil 1988-2008. „Þetta tafðist eitthvað í Austurríki á leiðinni til landsins en þetta kom í morgun. Þannig að við náum þessu inn í hús fyrir tónleikana."

Guðmundur segir að á þessum þrettán plötum séu hátt í 150 lög og þar er allt sem sveitin hefur gefið út. „Þarna verður líka ein ný plata sem heitir Arg en hún er full af munaðarlausum lögum sem hafa komið út á safnplötum og í kvikmyndum síðustu tíu ára."

Guðmundur segir að pakkinn verði á sérstöku hátíðartilboði í kvöld í tilefni dagsins.

Tónleikarnir fara fram í Laugardalshöllinni í kvöld og má búast við heljarinnar skemmtun hjá þessari uppáhalds hljómsveit landsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.