Enski boltinn

Úrvalsdeildin er best

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segir að enska úrvalsdeildin sé nú sterkasta knattspyrnudeild í heimi og bendir máli sínu til rökstuðnings á þá staðreynd að helmingur liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar koma frá Englandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem eitt land á fjóra fulltrúa í 8-liða úrslitum keppninnar.

"Spænska deildin var um tíma sú sterkasta í heimi en sú enska hefur náð henni. Ég man þegar Spánverjar áttu þrjú lið í undanúrslitum fyrir sjö eða átta árum, en nú er það England sem á flesta fulltrúa," sagði Ferguson sem er ekki smeykur við að mæta ensku liði í næstu umferð eftir dráttinn á föstudaginn.

"Það eru 40% líkur á að mæta ensku liði og það segir sitt um styrk deildarinnar. Það er líklega óhjákvæmilegt að við mætum ensku liði einn daginn en það skiptir ekki öllu máli hver andstæðingurinn er. Það verður líka gaman að sjá þar strax hvaða liði við mætum ef við komumst í undanúrslitin," sagði Ferguson, en Manchester United hefur aldrei mætt ensku liði á þessu stigi keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×