Enski boltinn

Jewell: Óvíst að titlar bjargi Grant

Avram Grant er gagnrýndur harðlega þessa dagana
Avram Grant er gagnrýndur harðlega þessa dagana NordcPhotos/GettyImages

Paul Jewell, stjóri Derby í ensku úrvalsdeildinni, segist óttast að Avram Grant sé á síðustu metrunum í starfi sínu hjá Chelsea jafnvel þó hann skili titlum í hús í vor.

Grant hefur verið gagnrýndur harðlega að undanförnu eftir að lið hans tapaði úrslitaleiknum í deildabikarnum og var svo skellt út úr enska bikarnum með tapi fyrir Barnsley um helgina.

Paul Jewell er á sama tíma talinn nokkuð öruggur í starfi sínu hjá Derby þó liðið sé næsta örugglega fallið úr úrvalsdeildinni og hafi ekki unnið leik undir hans stjórn síðan hann tók við í nóvember.

"Avram Grant hefur staðið sig ágætlega. Sumir stjórar fá lengri tíma en aðrir vegna almenningsálits og persónuleika síns. Avram tók við af Jose Mourinho, sem var stór persónuleiki og elskaður af stuðningsmönnum Chelsea, svo það var ljóst að hann fengi ekki fullan stuðning nema hann væri að vinna leiki. Um leið og hann fer að tapa, fær hann að kenna á því. Ég gæti ímyndað mér að hann yrði að vinna titla til að halda starfinu, en það er ekki víst að það sé nóg," sagði Jewell.

Chelsea og Derby mætast í úrvalsdeildinni annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×