Enski boltinn

Ekkert hægt að bóka í bikarnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Portsmouth vann Manchester United um helgina.
Portsmouth vann Manchester United um helgina.

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, segir að ekki sé hægt að bóka neitt í ensku bikarkeppninni. Portsmouth er eina úrvalsdeildarliðið sem eftir er í keppninni en dregið var í undanúrslitin í dag.

Portsmouth er talið langlíklegasta liðið til að vinna titilinn en liðið mun mæta West Bromwich Albion í undanúrslitunum og svo sigurvegara úr viðureign Cardiff og Barnsley ef það kemst í úrslitaleikinn.

„Fyrir helgina héldu flestir að Manchester United, Chelsea, Middlesbrough og West Brom kæmust í undanúrslit. Við vorum eina úrvalsdeildarliðið sem er eftir og erum því sigurstranglegir en ef maður horfir á bikarkeppnina síðustu ár er ljóst að maður þarf að eiga sinn besta leik til að komast áfram," sagði Redknapp.

„Þrátt fyrir að leika deild neðar eru þetta sterk lið sem eftir eru. Barnsley hefur lagt Liverpool og Chelsea og svo sá ég Cardiff spila frábæran fótbolta gegn Middlesbrough. West Brom skoraði fimm mörk á útivelli gegn Bristol Rovers. Það er því ljóst að þessir leikir verða ekki auðveldir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×