Enski boltinn

Bróðir Wilson Palacios enn í haldi mannræningja

Elvar Geir Magnússon skrifar
Wilson Palacios.
Wilson Palacios.

Edwin Palacios, sextán ára gamall bróðir Wilson Palacios, er enn í haldi mannræningja en honum var rænt í Hondúras í október 2007. Wilson er leikmaður Wigan í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er mikið áfall. Við vitum ekki hver gæti hafa gert þetta. Við eigum enga óvini," sagði Wilson í viðtali við BBC. Fjölskylda hans hefur borgað lausnargjald en þrátt fyrir það er Edwin enn í haldi mannræningjana.

„Þetta er of algengt í Hondúras. Leikmenn verða að gæta þess að fjölskylda þeirra sé örugg," sagði Wilson. Fjölskylda hans er fullviss um að Edwin sé enn á lífi.

Wilson Palacios er miðvallarleikmaður sem var í láni hjá Birmingham í haust en eftir að Steve Bruce hætti hjá félaginu var ljóst að félagið myndi ekki kaupa hann.

En eftir að Bruce hætti hjá Birmingham tók hann við liði Wigan sem keypti Palacios þann 11. janúar síðastliðinn. Palacios var þá með samning hjá Club Deportivo Olimpia í heimalandi sínu en samdi við Wigan til þriggja og hálfs árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×