Enski boltinn

Ótrúlegur sigur Barnsley á Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Barnsley fagna sigurmarki sínu gegn Chelsea.
Leikmenn Barnsley fagna sigurmarki sínu gegn Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Ensku B-deildarliðið Barnsley gerði sér lítið fyrir og sló út bikarmeistara Chelsea í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar í dag.

Kayode Odejayi skoraði eina mark leiksins með skalla á 66. mínútu leiksins en Martin Devaney átti fyrirgjöfina.

Þetta voru þó ekki einu færi Barnsley því Carlo Cudicini, markvörður Chelsea, varði vel frá Odejayi og Istvan Ferenczi átti skot í stöngina.

Joe Cole fékk besta færi Chelsea en hann missti marks af stuttu færi.

Barnsley sló út Liverpool í síðustu umferð og hafa nú endurtekið leikinn með því að slá eitt besta lið Englands úr leik. Liðið komst síðast í undanúrslit ensku bikarkeppninnar árið 1912 en liðið vann sinn eina bikartitil það árið.

Það var hart sótt að marki Barnsley síðustu fimmtán mínútur leiksins en leikmönnum liðsins tókst þó að halda aftur af sóknarþunga gestanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×