Enski boltinn

Hermann og félagar lögðu United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rio Ferdinand reynir að verja frá Sulley Muntari.
Rio Ferdinand reynir að verja frá Sulley Muntari. Nordic Photos / Getty Images

Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth gerðu sér lítið fyrir og lögðu Manchester United á Old Trafford í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar, 1-0.

Það var Sulley Muntari sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 78. mínútu eftir að Tomasz Kuszczak, markvörður United, var dæmdur brotlegur.

Kuszczak fékk reyndar að líta rauða spjaldið fyrir en hann hafði komið inn á sem varamaður fyrir Edwin van der Sar í hálfleik. United var þar að auki búið að nota allar þrjár skiptingar sínar.

Það var því Rio Ferdinand sem fór í markið en hann náði ekki að verja vítaspyrnu Muntari.

United var þó hættulegri aðilinn í leiknum og hefðu sennilega átt að fá vítaspyrnu snemma í leiknum þegar að Sylvain Distin braut á Cristiano Ronaldo.

Skömmu síðar komust Wayne Rooney og Carlos Tevez einir gegn einum varnarmanni Portsmouth en tókst ekki að færa sér það í nyt.

Patrice Evra átti svo skot í stöngina í síðari hálfleik og United átti fleiri góð færi en allt kom fyrir ekki. Portsmouth varðist afar vel í leiknum en Hermann lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar.

Þetta var í fyrsta skipti síðan 1992 sem Portsmouth kemst í undanúrslit bikarkeppninnar og í fyrsta skipti sem Portsmouth vinnur United á Old Trafford í hálfa öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×