Enski boltinn

Torres stoltur af áfanga sínum

NordcPhotos/GettyImages

Fernando Torres varð í gærkvöld fyrsti leikmaðurinn í 60 ár til að skora þrennu í tveimur heimaleikjum í röð fyrir Liverpool.

Torres skoraði öll þrjú mörk Liverpool í 3-2 sigri á Middlesbrough þann 23. febrúar sl. og bætti við annari þrennu í gærkvöldi þegar liðið burstaði West Ham 4-0.

Það var Jackie Balmer sem síðast náði þessum áfanga fyir Liverpool árið 1946, en Torres var fljótur að þakka félögum sínum markaskorun sína að undanförnu.

"Ég vissi ekki af þessu fyrr en eftir leikinn en það er mikill heiður að ná svona áfanga. Félagið á sér ríka sögu og því er gaman að vera partur af henni. Ég er stoltur af því. Metið er hinsvegar allra hjá félaginu, því ég gæti aldrei skorað svona ef ekki væri fyrir félaga mína, stuðningsmennina og þjálfarana," sagði Torres.

Steven Gerrard var mjög hrifinn af afrekum félaga síns. "Fernando er hrikalegur og hefur verið einstakur í allan vetur frá því hann skoraði fyrsta markið sitt. Hann byrjaði vel og er kominn með 18 mörk á sinni fyrstu leiktíð, en það er árangur sem enginn hefur náð síðan Michael Owen gerði það. Vonandi heldur hann áfram að skora fyrir okkur út leiktíðina," sagði fyrirliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×