Íslenski boltinn

Góður sigur Íslands á Póllandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dóra María (10) og Margrét Lára (9) skoruðu mörk Íslands í dag.
Dóra María (10) og Margrét Lára (9) skoruðu mörk Íslands í dag.

Ísland vann í dag sigur á Póllandi í fyrsta leik liðsins á Algarve Cup á Portúgal. Dóra Stefánsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu mörk leiksins í síðari hálfleik. Leiknum lauk því með 2-0 sigri Íslands.

Eftir því sem kemur fram á heimasíðu KSÍ var Ísland hættulegri aðilinn í leiknum. Margrét Lára átti gott færi strax í upphafi leiks en pólski markvörðurinn varði vel frá henni.

Þá átti Katrín Jónsdóttir skalla rétt yfir markið og Dóra átti einnig skot að marki sem markvörður Póllands varði.

Staðan í hálfleik var því markalaus en Dóra skoraði mark Íslands á 58. mínútu. Margrét Lára lagði boltann fyrir hana og skoraði Dóra í kjölfarið með skoti utan vítateigs.

Margrét Lára skoraði svo sjálf síðara markið eftir að hafa komist ein í gegnum vörn Pólverja. Markið kom á 81. mínútu en skömmu áður hafði hún átt skot í stöng en af stönginni hrökk boltinn til Rakelar Hönnudóttur sem skaut einnig í stöng.

Varamaðurinn Sara Björk Gunnarsdóttir komst einnig í gott færi en markvörður Póllands varði vel frá henni.

Sú nýbreytni var í leiknum að sex dómarar störfuðu við hann. Aukadómararnir tveir voru staðsettir fyrir aftan sitt hvort markið og einbeittu sér að brotum innan vítateigs.

Þetta kerfi verður svo notað á öllum leikjum á HM U20-landsliða kvenna sem fer fram í Chile síðar á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×