Enski boltinn

Chelsea áfrýjar brottvísun Lampard

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard fékk rautt um helgina.
Frank Lampard fékk rautt um helgina. Nordic Photos / AFP

Chelsea hefur ákveðið að áfrýja rauða spjaldinu sem Frank Lampard fékk í leiknum gegn sínu gamla félagi, West Ham, um helgina.

Lampard fékk rautt eftir að hafa ýtt við Luis Boa Morte, leikmanni West Ham, sem virtist hafa sparkað í Lampard.

Dómari leiksins, Peter Walton, ráðfærði sig við aðstoðardómara sinn áður en hann rak Lampard af velli og áminnti svo Michael Ballack í kjölfarið fyrir að mótmæla dómnum.

Enska knattspyrnusambandið sagði að áfrýjunin yrði tekin fyrir á morgun. Talsverð hætta er á því að sambandið lengi bannið um einn leik en Lampard fer sjálfkrafa í þriggja leikja bann.

Samskonar atvik átti sér stað fyrir skömmu er Middlesbrough áfrýjaði rauðu spjaldi sem Jeremie Aliadiere fékk fyrir stimpingar. Áfrýjuninni var hafnað og bannið lengt um einn leik þar sem áfrýjunin þótti með öllu tilgangslaus.

Ef rauða spjaldið stendur missir Lampard af leikjum Chelsea við Barnsley í ensku bikarkeppninni sem og gegn Derby og Sunderland í deildinni. Ef bannið verður lengt um einn leik missir hann líka af leik Chelsea og Tottenham á White Hart Lane þann 19. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×