Fótbolti

Hrinti sjúkraliða og missir af úrslitaleiknum

Samuel Eto´o og Michael Essien í hörðum slag
Samuel Eto´o og Michael Essien í hörðum slag AFP

Mikil dramatík einkenndi fyrri undanúrslitaleikinn í Afríkukeppninni í knattspyrnu í kvöld þar sem Kamerún tryggði sér sæti í úrslitum með 1-0 sigri á heimamönnum frá Gana.

Það var varamaðurinn Alain Nkong sem skoraði sigurmark Kamerún á 71. mínútu eftir laglega sendingu frá Samuel Eto´o, en Nkong hafði ekki spilað með landsliði sínu í átta ár áður en hann varð hetjan í dag.

Reading leikmaðurinn Andre Bikey hjá Kamerún mun ekki spila úrslitaleikinn eftir að hann lét reka sig af velli skömmu fyrir leikslok fyrir að ráðast á einn sjúkraliðann sem var inni á vellinum að huga að meiðslum leikmanns.

Ekki er gott að gera sér í hugarlund hvað Bikey gekk til þegar hann hrinti manninum, en ljóst er að þetta stundarbrjálæði kostar hann sæti í úrslitaleiknum.

Heimamenn í Gana eru því úr leik á mótinu en Kamerúnmenn mæta sigurvegaranum úr leik Egypta og Fílabeinsstendinga í kvöld.

Kamerúnmenn geta orðið fyrsta liðið til að vinna Afríkukeppnina fimm sinnum með sigri í úrslitaleiknum, en liðið vann keppnina árin 1984, 1988, 2000 og 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×