Innlent

Vilja öll helstu launþegasamtök inn á sama ramma

Samtök atvinnulífsins freista þess nú að fá öll helstu launþegasamtökin til að gangast inn á samningaramma sem þegar liggur fyrir í kjaraviðræðum þeirra við Flóann og Starfsgreinasambandið.

Þessir aðilar eru orðnir sammála um meginramma nýrra kjarasamninga sem felur í sér að þeir sem hafi lægsta tekjur og ekki hafa notið launaskriðs fái mestar hækkanir. Það er hins vegar ekki hægt að skrifa undir slíka samninga nema þeir sem hærri hafa tekjurnar séu tilbúnir að sætta sig við litlar sem engar launahækkanir.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það þurfi allir að leggjast á eitt til þess að geta náð þessum meginmálum, það er að segja að hugsa um þá sem eru lægstir og hafa dregist aftur úr í launaskriðinu. Það þurfi gagnkvæmt tillit hjá hinum ýmsu hópum til þess að það gangi upp.

Um leið vilja Samtök atvinnulífsins að ríkisvaldið komi að málum. Vilhjálmur segir að samtökin telji að huga þurfi að því strax ef það verður mikið atvinnuleysi næsta og vetur. Bæði verði greitt fyrir stóriðjuframkvæmdum og ýtt undir frekari opinberar framkvæmdir. Vilhjálmur segir að peningastefnan sé ekki að virka en baki atvinnulífinu stórtjón og það þurfi einnig að taka á þvi máli.

Húsnæðismál láglaunafólks eru einnig rædd við ríkisvaldið og loks kjaramál opinberra starfsmanna. „Launakostnaðarþróun hjá opinberum aðilum, að hún sé með svipuðum hætti og hjá hinum almenna vinnumarkaði," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×