Innlent

Búðarhálsvirkjun miðuð við meiri vatnsmiðlun

Sultartangavirkjun.
Sultartangavirkjun.
Landsvirkjun hyggst halda þeim möguleika opnum við gerð Búðarhálsvirkjunar að hún geti í framtíðinni fengið viðbótarvatn bæði með Norðlingaölduveitu og Skaftárveitu í gegnum Langasjó.

Níu ár eru frá því Alþingi samþykkti Búðarhálsvirkjun með henni verður beisluð fjörutíu metra fallhæð Tungnár milli Hrauneyjafoss og Sultartangarlóns en stöðvarhúsið verður við ofanvert lónið. Fjögurra kílómetra göng verða grafin undir Búðarháls til að flytja vatnið frá ármótum Köldukvíslar og Tungnaár, en þar verður reist stífla og myndað sjö ferkílómetra uppistöðulón, nefnt Sporðöldulón. Ekki varð vart opinberrar andstöðu gegn Búðarhálsvirkjun sem slíkri á sínum tíma og rann hún átakalaust í gegnum umhverfismat og Alþingi. Öðru máli gengdi hins vegar um vatnsmiðlun úr efri Þjórsá, sem áformuð var samhliða Búðarhálsvirkjun, og nefnd var Norðlingaölduveita. Með henni átti að flytja vatn úr efri Þjórsá yfir í Þórisvatn til að auka vatnsrennsli og þar með hagkvæmni virkjana á Tungnársvæðinu, ekki aðeins við Búðarháls heldur einnig virkjana við Vatnsfell, Sigöldu og Hrauneyjafoss. Í sama tilgangi hefur Landsvirkjun einnig haft á teikniborðinu svokallaða Skaftárveitu sem fellst í því að veita Skaftá yfir í Langasjó svo vatnið renni þaðan í gegnum virkjanir á Þjórsár og Tungnársvæðinu. Svo áköf voru mótmælin gegn Norðlingaölduveitu að Landsvirkjun ákvað að setja hana í salt og áform um Skaftárveitu hafa einnig mætt andstöðu. Stefnt er að því að Búðarhálsvirkjun verði boðin út síðar á árinu í þeirri stærð að möguleiki verði að nýta þessa auknu vatnsmiðlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×