Íslenski boltinn

Bjarni Þór: Fer til Twente til að fá að spila meira

Elvar Geir Magnússon skrifar
Bjarni í búningi Twente.
Bjarni í búningi Twente. Mynd/Heimasíða Twente

Bjarni Þór Viðarsson, einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins, er kominn til FC Twente í Hollandi. Samkvæmt heimasíðu félagsins skrifaði Bjarni undir tveggja og hálfs árs samning í dag. Fyrsta hálfa árið verður hann á lánssamningi.

Bjarni hefur síðustu ár verið í herbúðum Everton og lék m.a. með aðalliði félagsins gegn AZ Alkmaar í Evrópukeppninni fyrir jól.

„Ég kem hingað til að bæta mig frekar sem leikmaður. Mitt markmið hjá Twente er að fá að spila mikið. Ég veit að ég get þó ekki gengið að því vísu þar sem fyrir eru sterkir miðjumenn hjá liðinu," sagði Bjarni við heimasíðu Twente.

Bjarni Þór er fyrirliði U21 landsliðs Íslands og var í leikmannahópi A-landsliðsins í síðasta leik. Bróðir hans, Arnar Þór, er samningsbundinn Twente en er á láni hjá De Graafschap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×