Innlent

Flugvöllur eða íbúabyggð í Vatnsmýri?

Það var líklega tvennt sem vakti mesta athygli við málefnaskrá nýja meirihlutans í borginni. Í fyrsta lagi að reynt verði að varðveita 19. aldar götumynd Laugavegarins. Í öðru lagi og efst á lista meirihlutans er hins vegar Vatnsmýrin, að ekki verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli á kjörtímabilinu.

Ólafur F. Magnússon sagði í fréttum okkar í gær að flugvöllur yrði áfram í Vatnsmýri til langrar framtíðar. Sú fullyrðing á sér ekki stoð í málefnaskrá nýs meirihluta - þar sem segir aðeins að ekki verði tekin ákvörðun um flutning á kjörtímabilinu, þ.e. næsta tvö og hálfa árið, meðan veðurathuganir fyrir ný flugvallarstæði fara fram.

Gísli Marteinn Baldursson sagði í samtali við fréttastofu í dag að stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu væri óbreytt - og hann hefði í engu skipt um skoðun um byggð í Vatnsmýri. Hann sagði í október s.l vilja að fyrst yrði reist íbúðahverfi í Vatnsmýri og í Örfirisey áður en menn færu að skipuleggja byggð á Geldinganesi. Hann sagði auk þess að langflestir borgarfulltrúar vildu flugvöllinn burt úr Vatnsmýri.

Þegar Ólafur F. Magnússon lagði til að horfið yrði frá brottflutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni á borgarstjórnarfundi í apríl 2006 - var afstaða borgarstjórnar skýr. Tillaga Ólafs var kolfelld - með öllum greiddum atkvæðum allra flokka nema hans sjálfs - fjórtán eitt.

Við þetta tækifæri létu Sjálfstæðismenn bóka: "Að afstaða þeirra væri að Vatnsmýri færi að mestu undir íbúða- og atvinnusvæði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×