Innlent

Almenningur gæti tapað hundruðum milljóna

Til stóð að rífa húsin neðst á Laugaveginum
Til stóð að rífa húsin neðst á Laugaveginum

Eigendur Kaupangs, einkahlutafélagsins sem á húsin að Laugarvegi 4-6 og byggingarrétt á lóðinni, segja að ef ákvörðun verði tekin um að friða húsin muni það leiða til þess að fjárfesting og kostnaður sem nemi hundruðum milljóna króna ónýtist og bótaskylda skapist, sem lendi á skattgreiðendum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem eigendurnir sendu frá sér í dag.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Í fréttum í dag kemur fram að húsafriðunarnefnd hafi ákveðið að beina þeim tilmælum til menntamálaráðherra að húsin að Laugavegi 4-6 verði friðuð.

Í síðustu viku stóð til að rífa húsin og hefja framkvæmdir á lóðunum í samræmi við gildandi deiliskipulag og samþykkt byggingarleyfi. Undirbúningur framkvæmdanna hefur staðið í mörg ár. Teikningum hefur margsinnis verið breytt til þess að verða við óskum og ábendingum þeirra opinberru aðila sem um málið hafa fjallað. Borgarstjóri fór þess á leit við okkur að niðurrifi húsanna yrði frestað. Samkomulag tókst um að borgin tæki húsin niður og flytti þau á annan stað. Skyldi verkinu lokið á 14 dögum og borgin skila okkur lóðunum hreinum.

Húsafriðunarnefnd hefur fylgst með þessu ferli undanfarin ár. Það er með ólíkindum að nefndin taki sig nú til og sendi ráðherra beiðni um að friða húsin. Verði slík ákvörðun tekin mun það leiða til þess að fjárfesting og kostnaður sem nemur hundruðum milljóna króna ónýtist og bótaskylda skapast sem lendir á skattgreiðendum."


Bjarki Júlíusson og Jóhannes Sigurðsson skrifa undir yfirlýsinguna fyrir hönd Kaupangs eignarhaldsfélags ehf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×