Innlent

Guðni Jóhannesson nýr orkumálastjóri

Guðni A. Jóhannesson.
Guðni A. Jóhannesson.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur ráðið doktor Guðna A. Jóhannesson prófessor, sem nú gegnir stöðu forstöðumanns byggingartæknideildar Konunglega Verkfræðiháskólans í Stokkhólmi, sem orkumálastjóra frá 1. janúar 2008 til næstu fimm ára. Guðni tekur við af Þorkeli Helgasyni sem lét af embætti nú um áramótin.

Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að Guðni hafi veitt byggingartæknideild Verkfræðiháskólans forstöðu síðastliðin 13 ár og borið ábyrgð á fjármögnun hennar og rekstri. Hann hefur sem prófessor skipulagt og stjórnað rannsóknum, bæði grundvallarrannsóknum og hagnýtum, og tengt þær við atvinnulífið og samfélagið. Hann hefur átt þátt í að stofna nokkur sprotafyrirtæki á Íslandi og í Svíþjóð, starfað sem stjórnandi og setið í stjórn nokkurra fyrirtækja. „Guðni er virtur innan alþjóðasamfélagsins og hefur haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum á sviði orkumála," segir í tilkynningunni.

Umsækjendur um starf orkumálastjóra voru níu. Þrír þeirra voru kvaddir til sérhæfðra viðtala og taldist Guðni A. Jóhannesson hæfastur að mati ráðuneytisins til að gegna starfi orkumálastjóra vegna menntunar sinnar og áralangs starfs á alþjóðavettvangi að orkunýtingar- og auðlindamálum auk reynslu af stjórnun og rekstri.

Verkefni orkumálastjóra eru að annast daglega stjórn Orkustofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×