Innlent

Gistiplássum fyrir heimilislausa fjölgað og nýtt úrræði fyri

Jórunn Frímannsdóttir er formaður Velferðarráðs.
Jórunn Frímannsdóttir er formaður Velferðarráðs. MYND/GVA
Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að bæta við fjórum gistiplássum í Gistiskýlinu við Þingholtsstræti. Þá hefur verið samið við einkaaðila um að reka búsetuúrræði fyrir allt að 20 einsklinga sem hætt hafa neyslu áfengis eða vímuefna og þurfa á umtalsverðum stuðningi að halda.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að Gistiskýlið í Þingholtsstræti sé ætlað heimilislausu fólki sem hvergi eigi höfði sínu að halla. Í skýlinu eru nú pláss fyrir 16 einstaklinga en verða 20 eftir breytinguna. Undanfarið hefur þurft að vísa einstaklingum frá vegna plássleysis með fjölguninni á að leysa brýnasta vandann.

Velferðarráð samþykkti einnig á fundi sínum að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina / Al hjúkrun um rekstur á nýju búsetuúrræði með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga. Búsetuúrræðið er samvinnuverkefni Velferðarsviðs og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Tuttugu manns sem hætt hafa neyslu áfengis- og/eða vímuefna en þurfa á umtalsverðum stuðningi að halda til að ná tökum á lífi sínu fá þar aðstoð.

„Úrræðið er ætlað að veita einstaklingum húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að hlutaðeigandi einstaklingar geti búið sjálfstætt án vímugjafa og tekið virkan þátt í samfélaginu. Þörf fyrir búsetuúrræði með öflugum félagslegum stuðningi hefur lengi verið fyrir hendi fyrir fólk sem á að baki margar áfengis- og vímuefnameðferðir en er ekki í stakk búið til að búa í sjálfstæðri búsetu," segir í tilkynningu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×