Innlent

Grunnskólakennarar launalægstir kennarastétta

MYND/GVA

Grunnskólakennarar eru launalægstir kennarastétta samkvæmt kjarakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Kennarasamband Íslands. Þeir vilja jafnframt að laun þeirra hækki um nærri 50 prósent.

Fram kemur í tilkynningu frá Kennarasambandnu að könnun hafi verið unnin samhliða könnunum BHM og BSRB um sama efni. Hún leiðir í ljós að meðalgrunnlaun framhaldsskólakennara í október 2007 voru tæpar 295 þúsund krónur en meðalheildarlaun þeirra tæpar 406 þúsund krónur.

Meðalgrunnlaun leikskólakennara reyndust tæplega 262 þúsund krónur en meðalheildarlaun 297 þúsund. Þá reyndist meðaltal grunnlauna tónlistarkennara tæpar 292 þúsund krónur en meðalheildarlaun þeirra rúmar 331 þúsund. Grunnskólakennarar reka svo lestina en grunnlaun þeirra voru rúmar 242 þúsund krónur en heildarlaunin tæpar 286 þúsund krónur.

Launamunur kynjanna fimm prósent

Þá kemur fram í tilkynningunni að karlmenn séu að jafnaði með 18 prósentum hærri heildarlaun en konur. Þegar búið er að taka út áhrif vinnutíma, menntunar, starfsaldurs og aðra sambærilega þætti er kynbundinn launamunur 5 prósent sem er það lægsta sem fram hefur komið í sambærilegum kjarakönnunum Capacent Gallup.

Enn fremur segir kemur í ljóst að framhaldsskólakennarar vinna lengst í hverri viku, eða rúmlega 52 stunda vinnuviku. Þar á eftir koma grunnskólakennarar með rúmlega 46 stundir, tónlistarkennarar vinna rúmar 44 stundir á viku og leikskólakennarar tæpar 32 stundir. Karlmenn vinna að jafnaði um þremur stundum lengur á viku en konur.

Þegar spurt var um hversu mikið laun þyrftu að hækka til að teljast sanngjörn töldu grunnskólakennarar að laun þeirra þyrftu að hækka um tæp 46 prósent, leikskólakennarar um tæp 34 prósent, tónlistarkennarar um tæp 30 prósent og framhaldsskólakennarar um tæpan fjórðung.

Rúmlega 2.800 manns voru í úrtaki og svarhlutfall tæplega 65 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×