Innlent

Dæmdur fyrir að láta 10 ára stúlku bera sig

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot með því að hafa í febrúar í fyrra látið tíu ára stúlku hafa í frammi kynferðislega tilburði í gegnum vefmyndavél.Var hann einnig dæmdur til þess að greiða stúlkunni 250 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust og var horft til þess við ákvörðun refsingar. Þar kom fram að maðurinn hefði sér aðstoðar til að vinna bug á þunglyndi og öðrum geðrænum vandamálum. „Hvorutveggja er ákærða til refsimildunar. Á hinn bóginn er litið til þess að brot ákærða beindist að ungu barni," segir dómurinn.

Af hálfu fórnarlambsins var farið fram á 1,2 milljónir króna í miskabætur. Dómurinn segir að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu um andlega líðan stúlkunnar í kjölfar þessa atviks fyrir utan skýrslu stúlkunnar sjálfrar og móður hennar hjá lögreglu.

„Af þessum skýrslum má greina að atburðurinn hefur haft slæm áhrif á andlega líðan brotaþola. Þá er ljóst að atburður af því tagi, sem hér um ræðir, er almennt til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum," segir dómurinn og ákvað að dæma henni 250 þúsund króna bætur sem fyrr greinir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×