Íslenski boltinn

Boltavaktin á öllum leikjum dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins mun fylgjast náið með gangi mála í þeim fimm leikjum sem eru á dagskrá Landsbankadeildar karla í dag.

Hægt er að fylgjast með leikjum dagsins samtímis á Miðstöð Boltavaktarinnar, visir.is/boltavakt. Leikirnir hefjast klukkan 16.00 en hægt er að lesa nánar um gang þeirra með því að smella á viðkomandi leiki.

Deildin hefst nú að nýju eftir landsleikjafríið en í dag er það nítjánda umferð sem hefst með fimm leikjum. Sá sjötti, leikur Þróttar og ÍA, fer fram á morgun.

Spennan er mikil bæði á botni og toppi en Keflvíkingar geta tekið annað skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með sigri á Fjölni í Grafarvoginum í dag.

Síðast þegar Keflvíkingar töpuðu leik í deildinni var fyrir Fjölni í Keflavík. Þeir hafa því leikið ellefu leiki í röð án taps. Liðið er nú á toppi deildarinnar með fimm stiga forystu á FH sem á þó leik til góða.

FH mætir Íslandsmeisturum Vals á heimavelli en síðarnefnda liðið er í þriðja sæti og getur jafnað FH að stigum með sigri í dag. Það er því mikið undir í þeim leik, ekki bara fyrir FH og Val, heldur Keflavík einnig.

Framarar eru ekki nema einu stigi á eftir Val í fjórða sæti deildarinnar og mæta Blikum í Kópavoginum. Blikar eru í sjötta sæti deildarinnar með 27 stig og því um annan slag tveggja öflugra liða að ræða.

KR er í fimmta sætinu og tekur á móti öflugu liði HK sem hefur ekki tapað í fjórum leikjum í röð og unnið síðustu þrjá. Í þessum fjórum leikjum hefur liðið fengið tíu stig - fimm meira en í öllum fjórtán leikjunum á undan.

HK er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og er einu stigi á eftir Fylki sem er í þriðja neðsta sæti.

Fylkir mætir í heimsókn til Grindavíkur sem er í sjöunda sæti deildarinnar og á ekki raunhæfan möguleika á því að falla eða ná í Evrópusæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×