Lífið

Kári lagði álög á hest Sigurbjarnar

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar játar í Fréttablaðinu í dag að hafa lagt álög á hest Sigurbjarnar Bárðarsonar knapa með þeim afleiðingum að hestur hans missti skeifu og féll úr keppni á Landsmóti. Sigurbjörn segir Kára rammgöldróttan þó eflaust sé þetta allt saman tilviljun.

Landsmenn vita flestir að Kári Stefánsson er kjarnyrtur maður en nú hefur komið í ljós að hann er einnig kynngimagnaður og jafnvel göldróttur enda reynir maðurinn að komast að dýpstu leyndarmálum lífsins í starfi sínu.

Kári er líka hestamaður og hrossaræktandi. Í Fréttablaðinu í dag greinir hann frá göldrum sínum í samskiptum við Sigurbjörn Bárðarson eðalknapa á Landsmóti hestamanna fyrr í þessum mánuði. Sigurbjörn hefur tamið Stakk, gæðing í eigu Kára, undanfarin þrjú ár og ætlunin var að hann keppti á hestinum í úrslitum á mótinu.

En Kári ákvað að draga hestinn úr keppni og Sigurbjörn keppti því á hesti sínum Kolskeggi í staðinn. Þegar Sigurbjörn þeysir brautina á Kolskeggi, dauðsér Kári eftir öllu saman og leggur bölvun á Sigurbjörn.

Í Fréttablaðinu segir Kári: ,,Ég gekk meira að segja svo langt að segja við mann sem stóð við hliðina á mér í brekkunni að ég óskaði þess að Sigurbjörn missti skeifu undan Kolskeggi í úrslitunum og yrði síðastur."

Sigurbjörn segist þó ekki erfa þetta við Kára enda segir segir Kári í greininni að hann skammist sín og fyrirgefi sér seint þar sem Sigurbjörn sé vinur sinn. Ekki náðist í Kára í dag vegna málsins.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.