Innlent

Merkileg stefnubreyting hjá AGS

Edda Rós Karlsdóttir Gjaldeyrishöft segir Edda Rós Karlsdóttir til marks um hve staðan hér sé grafalvarleg.
Edda Rós Karlsdóttir Gjaldeyrishöft segir Edda Rós Karlsdóttir til marks um hve staðan hér sé grafalvarleg. Fréttablaðið/GVA

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur breytt um stefnu hvað gjaldeyrishöft varðar, að mati Eddu Rósar Karlsdóttur, hagfræðings í Landsbankanum.

Edda Rós segir koma verulega á óvart hvað gjaldeyrishöftin séu víðtæk og að Seðlabankinn skuli fá heimild til að viðhalda þeim allt til nóvemberloka 2010. „Í þessu felst mikil stefnubreyting hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hefur hingað til talað fyrir afnámi hafta og markaðslausnum. Stefnubreyting er því töluverð tíðindi og vísbending um að vinnubrögð sjóðsins hafi breyst töluvert frá því í Asíukreppunni,“ segir hún, en kveður höftin þó fyrst og fremst staðfestingu á því hvað staðan hér heima sé grafalvarleg. „Það, að við skulum velja jafn íþyngjandi aðgerðir fyrir atvinnulífið, segir meira en mörg orð. Áhættan við að fleyta þessum litla gjaldmiðli við jafn óvissar aðstæður var einfaldlega talin of mikil. Trúverðugleikinn er ekki fyrir hendi.“

Edda Rós kveðst hins vegar fegin að sjá hversu undirbúningur aðgerðanna virðist vandaður hjá Seðlabankanum, þótt kynna hefði mátt málið miklu betur. Aðkoma AGS sé einnig afar mikilvæg. „Hún er ákveðinn gæðastimpill og ætti að tryggja að aðgerðir Seðlabankans gangi ekki í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×