Innlent

Stjórnin einróma um ráðningu Þorsteins

Hjörleifur B. Kvaran.
Hjörleifur B. Kvaran.

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar og starfandi forstjóri REI, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Stöðvar 2 í gær þar sem sagt var frá ráðgjafarstörfum Þorsteins Siglaugssonar fyrir REI. Hjörleifur bendir á að Þorsteinn hafi verið ráðinn af stjórn REI og að laun hans hafi verið í fullu samræmi við „það sem tíðkast á ráðgjafamarkaði."

„Í fréttatíma Stöðvar 2, 3. nóvember sl., var reynt að gera störf ráðgjafa sem unnið hefur í þágu Reykjavík Energy Invest (REI) tortryggileg og gefið í skyn að ráðning hans hafi ekki verið á faglegum forsendum," segir Hjörleifur. „Af þessu tilefni er rétt að taka fram að stjórn REI samþykkti einróma 4. apríl sl. að ráða umræddan ráðgjafa til starfa. Meginhlutverk hans hefur verið að halda utan um stefnumótunarvinnu stjórnar REI með það að markmiði að ná sameiginlegri niðurstöðu allra flokka í borgarstjórn í einu mesta pólitíska deilumáli síðari ára."

Þá segir að ráðgafinn hafi unnið verkið í umboði stjórnar fyrirtækisins og í samstarfi við fjölmarga aðila, meðal annars starfsmenn REI, ýmsa sérfræðinga og borgarfulltrúa úr öllum flokkum. „Þessi vinna hefur skilað þeim árangri að samstaða og sátt hefur náðst innan stjórnar REI og Orkuveitu Reykjavíkur um nýjan starfsgrundvöll útrásarverkefna. Sú stefna felur í sér að dregið verði sem kostur er úr áhættu af erlendum verkefnum með því að fá að þeim utanaðkomandi fjárfesta," segir einnig og því bætt við að við úrlausn sértækra verkefna leiti Orkuveita Reykjavíkur og REI á tíðum til utanaðkomandi sérfræðinga, svo sem á sviði verkfræði, lögfræði, viðskiptafræði eða stefnumótunar.

„Verð á þjónustu umrædds ráðgjafa er í fullu samræmi við það sem tíðkast á ráðgjafamarkaði," segir Hjörleifur að lokum í yfirlýsingunni.






Tengdar fréttir

Náinn vinur Kjartans fær 1,2 milljónir í þóknun frá OR

Náinn vinur og stuðningsmaður Kjartans Magnússonar, varaformanns stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, fær 1,2 milljónir króna í þóknun á hverjum mánuði fyrir ráðgjafastörf sem hann innir af hendi fyrir Reykjavík Energy Invest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×