Innlent

Foreldrar í Garðabæ kæra sveitarfélagið

Frá Garðabæ
Frá Garðabæ

Vegna ákvörðunar Garðabæjar um að taka ekki þátt í greiðslu skólamáltíða í grunnskólum bæjarins hafa foreldrar grunnskólabarna í bænum kært sveitarfélagið til menntamálaráðuneytisins.

Kæran byggir á grein í lögum um greiðslu á skólamáltíðum í grunnskólum frá árinu 2008. Í kærunni kemur fram að Gjaldskrá bæjarins vegna skólamálsverða í grunnskólum bæjarins sé miðað við fasta mánaðarlega áskrift til nemenda fyrir heitar hádegismáltíðir og sé það fullt verð fyrir máltíðina, en ekki sé miðað við hráefniskostnað líkt og tíðkast í öðrum sveitarfélögum og gert sé ráð fyrir í umræddum lögum.

Foreldrarnir sendu bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar þann 1.september þar sem bent var á að sveitarfélagið færi ekki að umræddum lögum vegna skólamáltíða. Í bréfinu var farið fram á að Garðabær leiðrétti stefnu sína en niðurstaða bæjarráðs var að gjaldtaka sveitarfélagsins færi ekki gegn ákvæðum nýju grunnskólalaganna.

Erna Hrönn Geirsdóttir og Margrét Rúnarsdóttir skrifa undir kæruna fyrir hönd foreldra í Garðabæ. Erna segir að þær hafi tekið að sér að sjá um málið en á bak við þær sé stór hópur foreldra.

„Við höfum verið að ræða þetta fram og til baka og ákváðum að ganga í málið og fá þriðja aðila til þess að túlka lögin. Skilningur okkar og bæjarins er ekki sá sami og við viljum bara fá þetta á hreint,“ segir Erna.

Hún segir að kjölfar bréfsins sem sent var bæjaryfirvöldum hafi þær verið kallaðar á fund með Gunnari Einarssyni bæjrastjóra. „Það kom ekkert út úr þeim fundi þannig við ætlum að ýta þessu áfram.“

 

Ekki náðist í Gunnar Einarsson bæjarstjóra í Garðabæ vegna málsins.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×