Innlent

,,Ég held ég hafi aldrei á ævinni verið jafn reið"

Myndin er tekin af dóttur Önnu á slysavarðsstofunni í gær. Myndin er fengin af heimasíðu Önnu - www.anna.is
Myndin er tekin af dóttur Önnu á slysavarðsstofunni í gær. Myndin er fengin af heimasíðu Önnu - www.anna.is

Móðir 16 ára stúlku sem fékk piparúða yfir sig í anddyri lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í gær er allt annað en sátt með aðgerðir lögreglu. ,,Ég held ég hafi aldrei á ævinni verið jafn reið," segir Anna Helgadóttir en dóttir hennar komst við illan leik út úr lögreglustöðinni. Í framhaldinu leituðu mæðgurnar aðstoðar á slysadeild.

Nokkur hundruð manns mótmætlu við lögreglustöðina í gær handtöku Hauks Hilmarssonar sem dró Bónusfánann að húni á Alþingishúsinu fyrir tveimur vikum. Anna er vinkona Evu Hauksdóttur, móður Hauks, og hún mætti við lögreglustöðina til að styðja mæðginin.

,,Ég átti alveg eins von á því að við yrðum þrjár fyrir utan lögreglustöðina," segir Anna og bætir við að sér hafi komið verulega á óvart hversu margir mættu til að mótmæla handtökunni sem var ólögmæt að hennar mati.

,,Ég er ekki hlynnt því að fólk grýti hlutum eða skemmi þegar það er að mótmæla," segir Anna sem telur að mótmælin við lögreglustöðina hafi farið úr böndunum. ,,Mér fannst viðbrögð lögreglu aftur á móti furðuleg því það var eins og húsið væri mannlaust. Það reyndi enginn að koma og tala við fólkið. Fyrstu viðbrögð lögreglu var skyndiárás."

Anna segir að þegar að hópur fólks fór inn í anddyrið hafi dóttir sín borist inn með fjöldanum. Anna reyndi að ná til hennar og segja henni að koma út. Þegar fólkið kom hlaupandi út stuttu síðar undan piparúðanm fann Anna hana sárkvalda. ,,Hún fann til andlitinu, höndum, hnakka og alls staðar þar sem hún varð fyrir eitrinu."

Anna segir að dóttir sín hafi fengið góða aðhlynningu á slysavarðsstofunni í Fossvogi þar sem skolað var úr augum hennar. Anna furðar sig aftur á móti á því að starfsfólkið virðist ekki vita vel hvernig á að meðhöndla önnur svæði sem komast í snertingu við það efnið. ,,Það er vitað að lögreglan beitir þessu vopni og ég hafði talið eðlilegt að starfsmenn heilbrigðisstofnanna myndu vita betur hvernig á að meðhöndla þá sem komast í snertingu við eitrið."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.