Innlent

Telur 30% verðlækkun ólíklega

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.

„Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að spá af þessu tagi geti ræst," segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.

Seðlabankinn spáir því að húsnæðisverð lækki um allt 30 prósent að raunvirði til loka ársins 2010 vegna lægri ráðstöfunartekna, þrenginga á lánamörkuðum og aukins framboðs á íbúðarhúsnæði, eftir því sem fram kemur í nýjasta hefti Peningamála.

„Mér sýnist þetta vera afar svartsýn spá sem þarna er sett fram og á erfitt með að trúa því að þetta geti gerst," segir Jóhanna. Hún bendir á að slíkt fall á húsnæðisverði hafi orðið árið 1983. Þá hafi verið allt aðrar aðstæður í efnahagslífinu en nú. Verðbólgan hafi til dæmis verið mun hærri þá, eða um 80% á ársgrundvelli og kaupmáttur hafi rýrnað um 20-30%.

„Þetta er mun hærri spá en bankarnir hafa verið með. Þeir hafa verið að tala um 5% lækkun að nafnvirði á næsta ári og svo litlum breytingum eftir það," segir Jóhanna. Hún segir að sér finnist sú niðurstaða vera miklu líklegri. „En það er ekkert ólíklegt að það verði leiðrétting á fasteignamarkaðnum, af því að verðið er svo hátt núna," segir Jóhanna og bendir á að sú niðurstaða geti haft jákvæðar hliðar. Til dæmis sé mjög erfitt fyrir ungt fólk að kaupa húsnæði eins og staðan er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×