Fótbolti

Spánn Evrópumeistari

Elvar Geir Magnússon skrifar

Spánverjar urðu í kvöld Evrópumeistarar í fótbolta með 1-0 sigri á Þýskalandi í úrslitaleik. Sigur Spánverja var sanngjarn en þeir voru mun beittari í sínum aðgerðum meðan Þjóðverjar náðu sér engan veginn á strik.

Fernando Torres átti virkilega góðan leik og skoraði eina mark leiksins á 33. mínútu. Skömmu áður hafði hann átt skalla í stöngina.

Philip Lahm, varnarmaður Þýskalands, gerði slæm mistök. Hann var mun nær knettinum en hinsvegar var Torres mun ákveðnari og náði á snilldarlegan hátt að vippa boltanum yfir Jens Lehmann sem kom út úr markinu.

Marcos Senna fékk mjög gott færi fyrir Spánverja til að bæta við marki í seinni hálfleik en fór illa með virkilega gott færi á markteig. Þjóðverjar virtust hinsvegar hugmyndasnauðir og varnarmenn Spánar áttu ekki í miklum erfiðleikum.

Spánverjar töpuðu ekki leik á Evrópumótinu en liðið hefur haft þann stimpil á sér að floppa á stórmótum. Sigur þeirra í kvöld hefur því vafalítið verið enn sætari en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×