Erlent

Ný gegnumlýsingartæki á flugvöllum umdeild

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AFP/Getty Images

Nýju gegnumlýsingartækin sem ráðgert er að taka í notkun við vopnaleit á flugvöllum innan Evrópusambandsins hafa vakið nokkurn úlfaþyt og er það nú til skoðunar hvort þau brjóti hugsanlega í bága við reglur um friðhelgi einkalífsins.

Nýju tækin gera vopnaleitarfólki flugvallanna kleift að sjá í gegnum fatnað farþeganna og framkvæma þannig í raun líkamsleit án þess að afklæða þá eins og gert er við hefðbundna líkamsleit. Gagnrýnendur nýju tækjanna kalla þau sýndarlíkamsleit (e. virtual strip search) og segja þau innrás í einkalíf flugfarþega. Tækin skuli eingöngu nota þegar fyrir liggi rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi eitthvað falið innanklæða, rétt eins og þegar hefðbundinni líkamsleit er beitt.

Tækin hafa þegar verið tekin í notkun á nokkrum bandarískum flugvöllum auk breskra flugvalla og Schiphol-flugvallarins í Amsterdam. Embættismenn segja hins vegar að til þess geti komið að nýju gegnumlýsingartækin verði bönnuð taki ESB þau ekki inn í nýja reglugerð um leyfilegan öryggisbúnað á flugvöllum innan sambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×