Innlent

Þrír bílar höfnuðu utan vegar á Suðurlandi

Þrír bílar höfnuðu utan vegar á Suðurlandi í morgun en þar er víða mikil hálka á vegum. Bifreið fór út af á Biskupstungnabraut við Þrastarlund og sakaði ökumann bílsins, sem var einn á ferð, ekki alvarlega.

Þá fór jeppi út af Suðurlandsvegi við Kotströnd og voru tveir í honum. Þeirra meiðsl voru einnig minni háttar. Sama má segja um útafakstur á mótum Þorlákshafnarvegar og Þrengslavegar, þar sakaði ökumann bifreiðar ekki. Lögreglan á Selfossi vara við hálku á Suðurlandi og segir að í raun sé agjör glæra eins og það var orðað við fréttastofu.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar er sömuleiðis varað við því að flughált er á Þorlákshafnarvegi, í Þrengslum, frá Þorlákshöfn að Eyrarbakka, til Selfoss og allt að Laugarás. Hálka er á Hellisheiði og á Sandskeiði. Á flestum vegum á Suðurlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir.

Á Snæfellsnesi er snjóþekja á Fróðárheiði og á Vatnaleið einnig eru hálkublettir víða á láglendi. Á Vestfjörðum er hálkublettir í Ísafjarðardjúp og á Gemlufallsheiði, hálka er á Hálfdán, Dynjandisheiði og á Klettsháls. Víða leynast hálkublettir á láglendi. Á Norðurlandi er víðast hvar éljagangur ásamt hálku eða hálkublettum. Snjóþekja og éljagangur er á Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi, Tjörnesi og á Mývatnsheiði. Á Austurlandi er hálka á Hellisheiði eystri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×