Innlent

Engar reglur um níu milljón króna verðlaunafé forseta

"Ég hygg að það séu engar reglur um verðlaun sem forseta eru veitt sem einstaklingi. En forseti þiggur ekki laun frá öðrum en íslenska ríkinu á meðan hann gegnir embætti." Þetta segir Örnólfur Thorsson, hjálparhella Ólafs Ragnar Grímssonar, en Ólafur á von á veglegum bónus á næstunni.

Indverski sendiherrann á Íslandi tilkynnti nefnilega á dögunum að Ólafi yrði veitt Nehru verðlaunin en þeim fylgir 5 milljón indverskar rúpíur, eða níu milljónir króna.

Örnólfur segist ekki hafa grænan grun um hvernig Ólafur hyggist eyða verðlaunafénu. Aðspurður hvort Ólafur hafi nokkurn tímann fengið svo ríflegt verðlaunafé áður svarar Örnólfur að hann reki ekki minni til þess.

"Ég man satt að segja ekki eftir því að íslenskur forystumaður hafi fengið áþekk verðlaun," sagði Örnólfur Thorsson svo við Vísi um það leiti sem símasamband hans við blaðamann slitnaði.

Meðal þeirra sem hlotið hafa Nehru verðlaunin eru Martin Luther King, forystumaður í réttindabaráttu blökkumanna, Nelson Mandela, leiðtogi Suður-Afríku, Móðir Teresa, leiðtogi í mannúðar- og líknarstarfi, og Helmut Kohl, kanslari Þýskalands ásamt Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar.

Við þennan lista má bæta bæði Robert Mugabe, forseta Simbabve, og Tito, leiðtoga Júgóslavíu. Mugabe fékk verðlaunin árið 1989 og Tito árið 1971.

Þá fékk Jassir Arafat, leiðtogi Palestínumanna, verðlaunin árið 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×