Innlent

Fríkirkjan verður lýst bleik

Hjörtur Magni Jóhannsson Fríkirkjuprestur.
Hjörtur Magni Jóhannsson Fríkirkjuprestur.

Fríkirkjan í Reykjavík verður lýst bleikum ljósum klukkan sjö kvöld, í tilefni af árvekniátaki Krabbameinsfélags Íslands um brjóstakrabbamein. „Við erum stolt af því að taka þátt í þessu átaki, en baráttan gegn brjóstakrabbameini er barátta okkar allra. Bleiki liturinn hæfir Fríkirkjunni mjög vel og lýsingin er kærkominn. Hún vermir og lýsir upp í því mikla skammdegi sem við erum öll að ganga í gegnum. Liturinn vísar til samfélagslegrar samstöðu og samhygðar," segir sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur Fríkirkjunnar.

Bleika slaufan uppseld

Þrátt fyrir að sölu á bleiku slaufunni sé nú formlega lokið heldur árvekniátakið um brjóstakrabbamein áfram út október. „Sala bleiku slaufunnar fór fram úr okkar björtustu vonum, þvíhún seldist upp," segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands „Við seldum 40.000 bleikar slaufur, en það táknar að við náum að ljúka við að greiða allan kostnað við kaup og uppsetningu á nýju, stafrænu leitartækjunum og öðrum búnaði sem skipta mun miklu í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Við erum stolt og ánægð með þá samstöðu sem Íslendingar hafa sýnt í þessu átaki og vonum að hún haldi áfram í erfiðleikunum sem nú blasa við okkur."

Árveknisátak um allt land


„Þrátt fyrir að söluátaki slaufunnar sjálfrar sé lokið, er árvekniátakinu síður en svo lokið og viljum við halda áfram að minna fólk á baráttuna gegn brjóstakrabbameini og hvetja konur til að mæta reglulega í brjóstamyndatöku og skoða brjóstin sín mánaðarlega en það getur skipt sköpum við að greina brjóstakrabbmein á frumstigi," segir Guðrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×