Enski boltinn

Gylfi vill sanna sig hjá Shrewsbury

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Gylfi Þór í leik með íslenska U-21 landsliðinu.

Gylfi Þór Sigurðsson segist opinn fyrir þeim möguleika að vera áfram hjá enska D-deildarliðinu Shrewsbury en þangað var hann lánaður í síðustu viku frá Reading.

Núverandi lánssamningur gildir í einn mánuð en Gylfi fór beint í byrjunarliðið er Shrewsbury tók á móti Bournemouth um helgina og vann 4-1 sigur. Gylfi skoraði eitt markanna og var svo valinn maður leiksins.

Hann sagði í samtali við BBC að ef hann fengi áfram að spila væri hann opinn fyrir því að vera lengur hjá félaginu en í einn mánuð.

„Ef maður er hluti af sigurliði og fær að spila í hverri viku vill maður vera áfram," sagði Gylfi. „Ég hef ekki fengið að spila eins mikið og Reading og ég hefði viljað en ef ég stend mig vel hjá Shrewsbury gæti það orðið til þess að ég fæ fleiri tækifæri hjá Reading."

Gylfi lék allan leikinn fyrir Shrewsbury og skoraði fyrsta mark leiksins. Liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Wycombe.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×