Erlent

Stöðvuðu smygl á 10 tonnum af kókaíni

Kólumbíska lögreglan kom í gær í veg fyrir að meira en tíu tonnum af kókaíni yrði smyglað úr landi. Hún hefur þegar gerð upptæk yfir hundrað tonn af kókaíni það sem af er árinu.

Efnin átti að senda til Mexíkó en lögreglan lagði hald á sendinguna þegar verið var að fara að flytja hana í skip í borginni Barranquilla í norðurhluta landsins.

Talið er að verðmæti efnanna sé allt að tvö hundruð milljónir bandaríkjadala eða um tuttugu og fjórir milljarðar íslenskra króna. Þrír hafa verið handteknir í tengslum við málið.

Yfirvöld tilkynntu jafnframt að á sama tíma hafi tekist að koma upp um umfangsmikla eiturlyfjaverksmiðju. Framleiðslugeta hennar var tuttugu tonn af kókaíni á mánuði.

Kólumbía er stærsti útflytjandi kókaíns í heiminum og sér Bandaríkjunum og ríkjum Evrópu fyrir mestu af því heróíni sem þar fer á markað.

Lögreglan í Kólumbíu hefur í aðgerðum sínum á þessu ári gert upptæk hundrað og fimm tonn af kókaíni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×