Enski boltinn

Ívar tekur ábyrgð á sjálfsmarkinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Ingimarsson í leik með Reading.
Ívar Ingimarsson í leik með Reading. Nordic Photos / Getty Images

Ívar Ingimarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark um helgina þegar að hans menn í Reading töpuðu fyrir Preston, 2-1, í ensku B-deildinni.

Atvikið átti sér stað þegar að Ívar gerði sig líklegan til að hreinsa sendingu sem kom fyrir mark Reading. Markvörður Reading, Marcus Hahnemann, kallaði þá til hans og sagðist ætla að taka boltann en það var of seint - boltinn fór í mjöðm Ívars og í markið.

„Ég heyrði markvörðinn kalla og boltinn fór svo í mig," sagði Ívar í samtali við enska miðla eftir leikinn. „Ég hefði hins vegar átt að hreinsa boltann frá, sama hvað var kallað til manns. En það er ekki hægt að taka þetta til baka nú."

Hahnemann sagði að það væri lítið hægt að gera í slíkum atvikum. „Ég kallaði og Ívar reyndi að færa sig frá en fékk boltann í sig. Miðað við hversu oft svona aðstæður koma upp er óhjákvæmilegt að svona lagað gerist."

Reading er í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig en Preston í því áttunda með sautján. Brynjar Björn Gunnarsson var í byrjunarliði Reading en var tekinn af velli á 84. mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×