Lífið

Íslenskt undrabarn í fimleikum - myndband

Eyþóra Þórsdóttir. Íslenskt undrabarn í fimleikum slær í gegn í Hollandi.
Eyþóra Þórsdóttir. Íslenskt undrabarn í fimleikum slær í gegn í Hollandi.

Eyþóra Þórsdóttir, tíu ára gömul íslensk stúlka í Hollandi, hefur komist í sérstakan afrekshóp í fimleikum. Hún æfir yfir 30 stundir á viku og stefnir á ólympíuleikana.

"Lokatakmarkið er að komast á ólympíuleikana," segir Þór Thorarensen faðir fimleikastúlkunnar knáu. Þór býr ásamt eiginkonu sinni, Sirrý, og dóttur í Hollandi. Þau eru sannkallaðir íþróttaforeldrar og fylgjast stolt með árangri dóttur sinnar.

"Landsliðsþjálfari Hollands sá hana á æfingu og bað um að fá að æfa hana. Hún var sett í sérstakan afrekshóp sem í eru um tuttugu stelpur. Þetta er mikill heiður enda miðast æfingar og undirbúningur hópsins við að komast á ólympíuleikana en þar er sextán ára aldurstakmark," segir Þór.

Þó Eyþóra sé aðeins tíu ára gömul er hún þekkt andlit í staðarblöðunum í Hollandi. Skrifaðar hafa verið greinar um árangur hennar og á YouTube má sjá myndbönd af henni við æfingar.

Eyþóra æfir yfir 30 tíma á viku og er í sérstökum skóla fyrir íþróttafólk. Þór segir fjölskylduna alla styðja við bakið á henni.

"Lífið hjá okkur er ekki saltfiskur heldur fimleikar," segir Þór og hlær. "Hún hefur rosalega gaman að þessu og fékk tækifæri sem stendur ekki öllum til boða. Við segjum samt alltaf við hana að hún sé að þessu fyrir sjálfa sig en ekki fyrir okkur. Hennar draumur er núna að komast á ólympíuleikana og við styðjum hana í því."

Myndband af Eyþóru á YouTube má sjá hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.