Innlent

Nýr evrópskur menningarvefur á netinu

Á fimmtudaginn kemur opnar á Netinu nýr evrópskur menningarvefur, europeana.eu. Þar verða allar helstu menningarperlur Evrópuþjóðanna aðgengilegar öllum sem hafa aðgang að Netinu. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er fulltrúi Íslendinga í þessu sameiginlega verkefni Evrópuþjóðanna.

 

Í tilkynningu um málið segir að á fyrri tímum var sagt að í bókasafninu í Alexandríu væri að finna 70% af þekkingu mannkynsins. Verkefni stafrænu aldarinnar er að gera enn betur og því hafa þjóðir Evrópu ráðist í það mikla verkefni að gera öll helstu menningarverðmæti sín og vísindalegar upplýsingar aðgengilegar öllum á evrópska menningarvefnum europeana.eu.

 

Á europeana.eu verða bækur, kvikmyndir, tónlist og tímarit, myndlist, fræðirit og vísindalegar rannsóknarskýrslur. Brúin virkar í báðar áttir þannig að um leið og við Íslendingar fáum aðgang að menningarverðmætum annarra Evrópuþjóða fá þær aðgang að stafrænu efni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, s.s. handritum okkar, Íslandskortum, blöðum og tímaritum. Síðar verður opnaður aðgangur að íslenskum bókmenntum, kvikmyndum og öðrum menningarafurðum okkar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×