Innlent

Þrjár flugvélar fá að fljúga

Holberg Másson og fimm manna fjölskylda úr Kelduhverfi áttu von á því að komast um borð í vélar til London og Parísar í gærkvöldi og nótt.
Holberg Másson og fimm manna fjölskylda úr Kelduhverfi áttu von á því að komast um borð í vélar til London og Parísar í gærkvöldi og nótt.

Íslendingarnir, sem voru strandaðir vegna mótmælanna í Taílandi, áttu að fara með flugvél Finnair og jafnvel Thai Air til Parísar og London í nótt. Sigurður Yngvason, bóndi í Kelduhverfi, átti von á því í gærkvöldi að sendiráðsstarfsmaður myndi hitta sig og fjölskyldu sína á flugvellinum þegar þau lentu í París í dag.

Sigurður segir að vel hafi farið um fjölskylduna síðustu daga fyrir utan nóttina sem þau voru strönduð á alþjóðaflugvellinum í Bangkok. Börnin hafi þá sofið í stólum á flugvellinum. Í dag skýrist væntanlega hvernig þau komist heim en hugsanlega þurfi þau einhvern veginn að koma sér til Stokkhólms því að þau hafi farið í gegnum Stokkhólm á útleiðinni en hann hafi bara fengið skæting sem svör frá Icelandair.

Sex Íslendingar hafa verið stopp í Taílandi síðustu daga. Holberg Másson er einn Íslendinganna. Hann sagði í gærkvöldi að hópurinn væri á leið á herflugvöll en þaðan átti að reyna að fljúga hópnum frá Taílandi. Holberg var samferða Sigurði og fjölskyldu hans í rútunni á flugvöllinn í gær en átti von á því að síðan myndu leiðir skilja því að Holberg átti að fara með vél til Parísar. Holberg hefur verið í forsvari fyrir ferðamennina og átti von á því að þrjár til fjórar flugvélar fengju að fara í loftið.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að fólk á leið til og frá Taílandi hafi sett sig í samband við ráðuneytið en vissi ekki til þess að neinn hefði beinlínis óskað eftir aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×