Innlent

Læknar boða verkfallsaðgerðir í haust

Birna Jónsdóttir er formaður Læknafélags Íslands.
Birna Jónsdóttir er formaður Læknafélags Íslands.

Félagsfundur Læknafélags Íslands samþykkti í gærkvöld að hafna tilboði samninganefndar ríkisins um rúmlega 20 þúsund króna launahækkun með nýjum samningi og var samninganefnd félagsins falið að undirbúa verkallsaðgerðir í haust ef ekki verður breyting á viðhorfi ríkisins.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að samninganefnd félagsins hafi boðað til fundarins í gærkvöld til þess að kanna hug félagsmanna til tilboðs ríkisins. Það hljóðar upp á flata hækkun upp á 20.300 krónur að sögn Birnu. „Þetta myndi þýða 8 prósenta raunkjaraskerðingu hjá okkar félagsmönnum ef verðbólguspár ganga eftir," segir Birna og segir félagsmenn hafa hafnað tilboði ríkisins.

Birna segir að samninganefnd félagsins hafi kvartað undan því að engar raunverulegar viðræður séu í gangi, ríkið bjóði bara umrædda upphæð og samning fram á næsta voru og annað sé ekki til umræðu. „Þetta eru engar viðræður og reyndir samningamenn hafa á orði að það sé ekkert til umræðu. Það er bara setið og horft yfir borðið," segir Birna.

Birna bendir á að aðrar heilbrigðisstéttir hafi boðað aðgerðir vegna árangursleysis í viðræðum við ríkið. Hjúkrunarfræðingar hafi boðað yfirvinnubann og nærri helmingur ljósmæðra hjá Landspítalanum hafi sagt upp. „Það er samningafundur nú klukkan tíu og skilaboðin á fundinum í gær til samninganefndarinnar var að fara með þessar upplýsingar, að við höfnum tilboðinu, á þann fund. Ef ekki verður breyting á afstöðu samninganefndar ríksins verður farið að undirbúa verkfallsaðgerðir í haust," segir Birna. Slíkt verkfall myndi ná til allra lækna sem starfa hjá ríkinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×